Hugleiðsla er aðferð til að beina huganum í ákveðna átt t.d að öndun eða sjá fyrir sér ákveðinn lit, með það að leiðarljósi að kyrra hugann, þannig náum við að temja eða draga úr áhrifum óstýrlátra hugsana sem geta haft áhrif á líðan okkar m.a geta valdið streitu og kvíða. Í raun er hugleiðsla einskonar þjálfun fyrir hugann sem eflir einbeitingu og skýrleika hugsana, það fer að „rofa“ til hjá okkur í öllu áreitaflóðinu sem dynur á okkur í daglegu lífi. Hugleiðsla er ein af okkar náttúrulegum leiðum til að koma líkama, huga og sál í jafnvægi sem eina heild. Til eru margar aðferðir til að hugleiða því ættu allir að geta fundið sína leið til að ná að róa hugann og finna fyrir kyrrð innra með sér.
Mjög gott er að gefa sér tíma á hverjum degi til að núllstilla sig. Setjast niður í sætið eina ( þitt hásæti ) og alltaf á sama stað í íbúðinni. Býrð til þitt andrúmsloft og þína aðferð sem kallar á að þú komir aftur og aftur í sætið eina. Þú gætir til dæmis verið með uppáhalds hlutina þína á “altarinu” kertaljós og örlítið reykelsi ( ef þú þolir það ). Ef þú getur setið með krosslagðar fætur þá er oft gott að setja undir rófubeinið kubb, púða eða teppi nú eða rúlla jógadýnu og finna góða og þægilega stellingu. Settu teppi og púða undir hnéin ef þau eru hátt uppi til að úthaldið verði meira. Gott er að vera vel klæddur jafnvel með hugleiðslusjal eða teppi. Sattvikur tími er á morgnanna frá klukkan 04:00-8:00 þá er langbest að gera jóga, öndunaræfingar og stunda hugleiðslu. Þú þarft alls ekki að sitja í margar klukkustundir. Gefðu þér bara 5 – 10 mínútur og svo finnur þú að úthaldið eykst hægt og sígandi. Aðferðirnar eru margar og oft er bara mjög gott að byrja á því að koma sér fyrir og sitja og fara með staðhæfingar aftur og aftur til dæmis; ég er friðsæl og ég er hamingjusöm eða fara með möntru, nota öndunina, orkustöðvar, ljósið og líkamann. Jóga snýst um að sameina huga líkama og sál. Ef þú hefur tíma til að taka öndunaræfingar og gera jóga þá er það gott en þess þarf ekki alltaf. Ef þú ætlar að vakna fyrr á morgnanna þá verður þú að fara fyrr að sofa. Gætir byrjað á því að stefna á 15-30 mínútna ástundun á morgnanna þá verður þú að fara sofa 15-30 mínútunum fyrr en vanalega og helst fyrir klukkan 22:00 á kvöldin.
Það er ekki nóg að hreyfa sig eins og stöðugt er verið að minna okkur á, við þurfum líka að hvílast. Hvíla líkama og huga. Í stöðugu áreiti samfélagsins gleymum við okkur sjálfum, erum stöðugt með athyglina út á við og veitum ekki innri líðan gaum. Okkur finnst gjarnan að eitthvað sé að, erum þreytt, orkulaus, ófullnægð og finnum fyrir streitu. Þegar við setjumst niður í réttri líkamsstöðu, veitum önduninni athygli og byrjum að anda dýpra fer líkaminn að slaka og það hægir á huga. Þegar þú veitir líkama, huga og tilfinningum athygli með því að skynja þig, leggur þú hugann til hliðar og nærð smám saman að tengjast kjarnanum þar sem kyrrð og sætti ríkir. Þetta krefst æfingar og ástundunar. Margir kalla þessa tækni gjörhygli eða mindfulness en rannsóknir sýna að mindfulness er ákjósanleg tækni til að draga úr steitu og verkjum. Árangurinn er vellíðan, gleði, friðsæld og bjartsýni.
- ÞAÐ TEKUR 40 DAGA AÐ BRJÓTA UPP VENJUR OKKAR
- ÞAÐ TEKUR 90 DAGA AÐ BÚA TIL NÝJAR VENJUR
- ÞAÐ TEKUR 120 DAGA AÐ FESTA NÝJA VANANN Í SESSI
- ÞAÐ TEKUR 1000 DAGA AÐ VERÐA MEISTARI Í NÝJA
VANANUM.
Ég hvet þig til að prufa 40 daga og sjá hvernig þér líður. Gefðu þér pínu örlítið brot af deginum til að setjast niður og hugleiða. Ef þú átt erfitt að sitja með krosslagðar fætur eins og ég lýsti hér fyrir ofan, sittu þá á stól en með báðar iljar í jörðu, hendur á hnjánum ( ekki setja bakið þitt upp við bak á stól ) og byrjaðu þína hugleiðslu. Það eru alltaf til einhverjar leiðir til að aðlaga og nálgast þannig að þér líði ekki ílla í hugleiðslunni. Í rauninni getur þú hugleitt hvar sem er í göngu, útí náttúrunni í strætó, eða biðstofunni, finndu þína leið og þinn tíma en langsamlegast best er að hafa “rútínu” eða daglegt skipulag og hefja hvern einasta dag á hugleiðslu.
Gangi þér prýðilega vel og hlakka til að taka Yoga & Hugleiðslu & Öndunaræfingar með þér í salnum – Speglasal í Kópavogi nú eða í Hreyfingu Heilsulind.
Áskorun 40 daga HUGLEIÐSLA
Kærleiksmantran mín
“OM NAMO BHAGAVATE VASUDEVAYA”