Í draumi sérhvers manns…

Ég eins og öll þjóðin erum harmi sleginn vegna atburða síðustu viku og auðvitað er ótti sem dvelur hið innra með mörgum og reiði.  Reiðin er erfið, reiðin er vont og það er vont að vera reiður.  Hvað getum við gert til að hætta vera svona reið?  Ein leiðin er sú að reyna með öllum mætti að kippa sjálfum sér inní núið hér og nú.  Reyna eftir öllum mætti að upplifa augnablikið og fegurðina í augnablikinu.  Það gætir þú gert með því að fara út í náttúruna og upplifa kyrðina og fegurðina allt í kring.  Vera innan um börn, finna fyrir SATVIKU orkunni þeirra og upplifa sakleysi þeirra og trú á að allt er nákvæmlega eins og það á að vera.  Önnur leið er að stunda YAMAS   &   NIYAMAS úr jógaheimspeki Patanjali..  og reyna eftir öllum mætti að lifa lífinu án OFBELDIS og það er fyrsta Yaman sem heitir AHIMSA hér.  Hvar ertu mögulega og hverju/m ertu mögulega að beita ofbeldi – HIMSA….  hvet þig til að skoða, reiði og ljót orð til náungans getur verið verst fyrir þig sjálfa.  Sýndi kærleik og auðmýkt, ást og góðvild…  lífið allt verður svo miklu betra og fallegra.  Hin guðdómlega fegurð býr í öllu og öllum, kafaðu inn í innsta kjarnann og dragðu upp já dragðu upp það slæma – vonda sem býr hið innra með þér og eyddu því, losaðu þig við það TAPAS sem er 3 NIYAMAN sjáðu hér; hér

Ég er búin að lesa þetta fallega og merkilega ljóð eftir Steinn Steinar nokkrum sinnum, það er eins og það detti inn stundum á réttum tíma og enn og aftur “allt er nákvæmlega eins og það á að vera”  hann var flottur kallinn og kunni þetta vel.

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.
Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.

Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir
að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.
Hann vex á milli þín og þess, sem lifir,
og þó er engum ljóst, hvað milli ber.

Gegn þinni líkamsorku og andans mætti
og öndvert þinni skoðun, reynslu og trú,
í dimmri þögn, með dularfullum hætti
rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú.

Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum
í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.
Hann lykur um þig löngum armi sínum,
og loksins ert þú sjálfur draumur hans.

Steinn Steinarr

Morgunblaðið 5.mai 2001, ljóðarýni; Njörður P. Njarðvík

Steinn Steinarr (1908-1958) telst til frumkvöðla hinnar svokölluðu formbyltingar í sögu íslenskrar ljóðagerðar, þótt engan veginn yrði hann fyrstur til að leita nýrra leiða í formi. Því má ekki heldur gleyma að mikill hluti kvæða hans er ortur á fullkomlega hefðbundinn hátt með reglubundinni hrynjandi, stuðlum og rími. Samt eru þau fersk og nýstárleg, eins og draumkvæði þetta sýnir glögglega. Í hefðbundum brag verður listin til fyrir togstreitu milli frelsis hugsunar og fjötra formsins. Galdurinn er þá að ná slíkum tökum á bragnum að lesandi finni hvergi kreppt að tjáningu hugans. Vandinn við slíka hefð er sá að jafnvel haganlega ort kvæði verður oft kunnuglegt líkt og maður hafi lesið það áður, – nema þar sé einhver sá ferskleiki sem gerir hefðina ekki langslitna. Þetta leysir Steinn með frumlegu myndmáli og frjórri hugsun, sem oftlega stefnir reyndar inn úr rökhyggju með þversögnum. Þar með getur afstrakt fyrirbæri orðið líkt og áþreifanlegt og sýnilegt, – skynjanlegt ef ekki alls konar skiljanlegt.

Að ytra formi er þetta kvæði sem sé fullkomlega hefðbundið: fjögur fjögurra lína erindi, fimm bragliðir hvert vísuorð, auk forliða, réttir tvíliðir sem enda á stýfðum lið í jöfnu hendingunum, víxlrím og regluleg stuðlasetning. Ekkert óvænt eða nýstárlegt. En öðru máli gegnir um hugsunina og hvernig henni er komið á framfæri.

Ljóðið hefst á fullyrðingu sem hljómar eins og málsháttur. Í draumi sérhvers manns er fall hans falið. Svo er eins og skáldið búist við þeirri spurningu hvað hann eigi eiginlega við með slíkri fullyrðingu, því að framhaldið er einskonar útlegging á þessari fyrstu málsgrein, sem ekki er auðvelt að skilja svona umsvifalítið. Af hverju felst fall okkar, okkar allra, í draumi okkar? Þetta er heimspekileg fullyrðing, sem kallar á ýtarlega útlistun. Skáldið grípur þá til myndmáls, því að með því móti getur hann sýnt lesanda það sem ekki er svo auðvelt að útskýra.

Aðferð Steins er fólgin í því að tengja saman ytri og innri veruleika. Draumurinn fæðist innra með okkur og þar ölum við hann og berum hann með okkur. Í þeim innlöndum kunnum við víst ærið fá kennileiti, og því bregður skáldið á það ráð að taka mið af ytri veruleika, hinni köldu ró hans, sem er þá um leið myndhverfing. Með annarri myndhverfingu ferðumst við þarna innra um dimman kynjaskóg sem er búinn til úr blekkingum sem í draumnum örlagaríka eru fólgnar. Með öðrum orðum: við sköpum okkur draum sem er blekking, og við ráfum um hann rammvillt eins og í dimmum kynjaskógi.

Fyrst sköpum við drauminn og svo göngum við honum á vald. Hinn dimmi kynjaskógur blekkinganna stækkar og verður að bákni innra með okkur og nær valdi á lífi okkar. Og loks snýst allt við. Það sem við skópum vex okkur úr greipum, verður ofjarl okkar. Hann er persónugerður í lokin þar sem hann “lykur um þig löngum armi sínum”, tekur okkur þar með í faðm sér og gerir okkur að draumi sínum. Blekkingin hefur sigrað.

Hver er svo þessi draumur? Ljóðmælandinn gerir ekki vart við sig. Upphafsfullyrðingin er almenn en svo tekur við ávarpið “þú”, og því er haldið kvæðið á enda. Þar með verður rödd ljóðsins á vissan hátt ágeng við lesandann og hljómar líkt og viðvörun. Varaðu þig á draumi þínum, varaðu þig á því sem býr handan veruleikans, varaðu þig á því að gefa þig á vald hugaróra sem þú stjórnar ekki og ræður ef til vill ekki við. Þar sem draumurinn er aldrei skilgreindur, er hann táknrænn, og lesandanum látið eftir að skilja og varast sinn draum. Hann getur snúist um hugmyndafræði, frægð og frama, auðæfi og velgengni, og ótal margt annað. Gangir þú slíkum draumórum á hönd, getur þú misst vald á veruleika þínum.

NJÖRÐUR P. NJARÐVÍK

Þetta finnst mér magnað og við skulum svo sannarlega hugsa vandlega um óskir okkar og drauma og þrár…  flott skýring

Varaðu þig á draumi þínum, varaðu þig á því sem býr handan veruleikans, varaðu þig á því að gefa þig á vald hugaróra sem þú stjórnar ekki og ræður ef til vill ekki við.

Kærleikur og ljós til ykkar allra og megi ljósið – demanturinn hið innra með þér lýsa þig upp að innann sem utan.

JAI BHAGWAN

steinn_steinarr

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Please Do the Math